Klopp ætlar í frí

Jürgen Klopp hefur stýrt LIverpool frá 2015.
Jürgen Klopp hefur stýrt LIverpool frá 2015. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Liverpool, ætlar að taka sér árs frí frá fótbolta þegar hann lætur af störfum hjá enska félaginu.

Það er Bild sem greinir frá þessu en Klopp hefur verið sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá þýska landsliðinu að undanförnu.

Þjóðverjinn útilokaði hins vegar að taka við þýska landsliðinu eftir EM 2021 en Joachim Löw, núverandi þjálfari þýska liðsins, mun láta af störfum eftir Evrópumótið.

Klopp, sem er 53 ára gamall, tók við stjórnartaumunum hjá Liverpool í október 2015 eftir að Brendan Rodgers var rekinn.

Hann er samningsbundinn Liverpool út tímabilið 2024 og hann hefur sjálfur gefið það út að hann muni ekki framlengja samning sinn við félagið eftir þann tíma.

Óvíst er hvað tekur við hjá þýska stjóranum sem hefur gert Liverpool að Englands-, Evrópu- og heimsmeisturum félagsliða á tíma sínum á Englandi en hann hefur verið orðaður við öll stærstu félög Evrópu undafarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert