Argentínski knattspyrnumaðurinn Sergio Agüero er eftirsóttur en samningur framherjans við Manchester City rennur út í sumar og bítast nú nokkur lið um að fá hann á frjálsri sölu.
Agüero hefur glímt mikið við meiðsli í vetur og lítið spilað en hann var þó í byrjunarliði City sem vann 3:0-sigur á Fulham í síðasta leik og skoraði þar sitt fyrsta deildarmark í rúmt ár. Enska götublaðið The Daily Mail segir að Chelsea sé eitt þeirra félaga sem vilji semja við leikmanninn í sumar og jafnframt halda honum á Englandi.
Spænski miðillinn AS greindi hins vegar frá því fyrr í vikunni að Agüero muni semja við Barcelona á Spáni. Framherjinn er sá markahæsti í sögu Manchester City, hefur skorað 181 deildarmark í 271 leik síðan hann kom til félagsins árið 2011.