Everton þarf að tefla þriðja markverði sínum fram á morgun þegar liðið tekur á móti Manchester City í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.
Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Everton skýrði frá því í dag að báðir aðalmarkverðirnir, Jordan Pickford og Robin Olsen, væru úr leik en áður hafði komið fram að Pickford yrði frá í einhverjar vikur.
Þriðji markvörðurinn, Joao Virginia, kom inn á fyrir Pickford þegar hann meiddist í leik liðsins gegn Burnley um síðustu helgi. Það var frumraun hans í úrvalsdeildinni en Virginia er 21 árs gamall Portúgali sem kom til Everton frá Arsenal árið 2018 og hefur leikið með U23 ára liði félagsins. Virginia hefur áður spilað einn leik með Everton í deildabikarnum.
Þá staðfesti Ancelotti að þeir James Rodriguez, Fabian Delph, Abdoulaye Doucoure og Jean-Philippe Gbamin væru allir á meiðslalistanum og yrðu ekki með gegn City.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur jafnað sig af smávægilegum ökklameiðslum en hann kom ekkert við sögu í leiknum við Burnley af þeirra völdum.