Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að sitt lið þurfi að gæta sín sérstaklega á aukaspyrnum Everton í bikarleik liðanna á morgun því þar eigi andstæðingarnir sannkallaðan meistara.
Leikur liðanna í átta liða úrslitunum fer fram á Goodison Park í Liverpool á morgun klukkan 17.30. City er á toppi úrvalsdeildarinnar, með yfirburðaforystu, en Everton er í sjöunda sætinu. Bæði lið ætla sér sigur í bikarkeppninni í ár.
Guardiola sagði á fréttamannafundi að sínir menn þurfi að ráða við aukaspyrnurnar hjá Gylfa Þór Sigurðssyni.
„Þetta er úrslitaleikur á morgun. Við verðum að átta okkur strax á því hvernig þeir spila, hvernig við eigum að finna auðu svæðin á vellinum, og hvernig við eigum að verjast aukaspyrnum þeirra því þar eiga þeir algjöran sérfræðing, Gylfa Þór Sigurðsson,“ sagði Guardiola.