Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, er ánægður með að endurheimta Paul Pogba úr meiðslum og telur hann geta hjálpað liðinu að vinna titil á tímabilinu.
„Þegar maður sér Paul spila eins og hann gerði á fimmtudagskvöldið og þegar maður sér hann snúa aftur til æfinga sést hversu vænt honum þykir um okkur, hve mjög hann nýtur þess að spila og hversu mikið við getum grætt á því að hafa hann hér,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag, en Pogba sneri aftur í lið Man Utd í gærkvöldi þegar hann skoraði sigurmarkið gegn AC Milan í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Pogba, ekki síst eftir að umboðsmaður hans, Mino Raiola, fullyrti að hann væri óánægður hjá félaginu. Solskjær segir þó engan innan félagsins vera að spá í því og að einungis sé litið til næsta leiks gegn Leicester City í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn.
„Allir í liðinu, þar á meðal Paul, eru að einbeita sér að því að gera eins vel og þeir geta á þessu tímabili. Við vonumst til þess að titill á á tímabilinu geti virkað sem hvati fyrir okkur og lagt grunninn að fleiri titlum í framtíðinni.
Ég tel að engri orku verði eytt í þessar sögusagnir. Auðvitað eigum við í viðræðum. Ég vonast til þess að hann geti byrjað gegn Leicester en mér finnst ólíklegt að hann geti spilað 90 mínútur,“ bætti hann við.