Brighton vann öruggan 3:0-sigur á Newcastle á Amex-leikvanginum í Brighton er liðin mættust í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Brighton var aðeins búið að vinna einn af síðustu fimm leikjum sínum og Newcastle var án sigurs í síðustu fimm og höfðu bæði lið sogast niður í fallbaráttuna. Leikurinn í kvöld var því ansi mikilvægur.
Það stefndi í markalausan fyrri hálfleik þegar Leandro Trossard sneri af sér varnarmann og sneri svo knöttinn í netið í uppbótartíma. Eftir hlé færðu leikmenn Brighton sig svo enn frekar upp á skaftið. Danny Welbeck kom þeim í 2:0 á 51. mínútu með frábæru skoti, 25 metra frá marki, eftir sendingu frá Trossard. Staðan varð svo 3:0 á 68. mínútu þegar Neal Maupay stýrði boltanum í netið af stuttu færi eftir undirbúning Pascals Gross.
Með sigrinum er Brighton nú með 32 stig í 16. sæti, sex stigum fyrir ofan fallsæti, en þetta var annar sigur liðsins í röð. Newcastle er aftur á móti án sigurs í síðustu sex leikjum sínum og með 28 stig í 17. sæti, tveimur stigum fyrir ofan Fulham í fallsæti, sem hefur þó leikið einum leik meira.