Chelsea vann 2:0 sigur á Sheffield United í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á Stamford Bridge í Lundúnum í dag. Liðið er þar með komið í undanúrslit bikarkeppninnar.
Chelsea tók forystuna þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Hornspyrna liðsins var þá hreinsuð frá, Ben Chilwell náði boltanum, þrumaði honum inn í teiginn, skot hans eða sending stefndi fram hjá en Oliver Norwood, miðjumaður Sheffield United, teygði sig í boltann og stýrði honum í eigið net, ansi klaufalegt og staðan orðin 1:0.
Leikmenn Chelsea léku á als oddi og hefði forystan hæglega getað verið stærri þegar flautað var til leikhlés en sjálfsmark Norwood var þó það eina sem skildi liðin að í hálfleik.
Í síðari hálfleik tóku gestirnir í Sheff Utd aðeins við sér. Besta færi þeirra kom um miðjan síðari hálfleikinn þegar John Lundstram átti frábæra fyrirgjöf frá hægri sem rataði beint á kollinn á David McGoldrick en á einhvern ótrúlegan hátt skallaði hann fram hjá markinu af stuttu færi.
Tveimur mínútum síðar, á 69. mínútu, átti Oliver McBurnie gott skot rétt fyrir utan en Kepa í marki Chelsea varði vel til hliðar.
Á fyrstu mínútu uppbótartíma fékk varamaðurinn Rhian Brewster svo dauðafæri til þess að jafna metin fyrir Sheff Utd en skot hans fór í varnarmann og rétt fram hjá.
Í næstu sókn geystust leikmenn Chelsea svo fram, Chilwell fékk boltann á vinstri kantinum, gaf fyrir á nærstöngina þar sem varamaðurinn Hakim Ziyech tók vel við boltanum og tæklaði boltann í netið af stuttu færi.
Staðan orðin 2:0 og þar við sat enda blés Andy Madley dómari til leiksloka skömmu eftir mark Ziyech.