Í starfslýsingunni að vinna titla

Ole Gunnar Solskjær horfði upp á Manchester United liðið sitt …
Ole Gunnar Solskjær horfði upp á Manchester United liðið sitt detta úr keppni í enska bikarnum í dag. AFP

Ole Gunnar Solskjær hefur ekki farið í neinn feluleik með löngun sína til að vinna fyrsta titilinn sem knattspyrnustjóri Manchester United. Liðið missti þó af einn einu tækifærinu til þess er það féll úr keppni gegn Leicester í fjórðungsúrslitum enska bikarsins í dag.

Phil McNulty, ritstjóri íþróttadeildar BBC, fór ofan í saumana á árangri United undir stjórn Norðmannsins síðan hann tók við liðinu í desember 2018. United koðnaði niður í 3:1-tapi gegn sterku Leicester-liði og gaf Norðmaðurinn það í skyn við fjölmiðla eftir leik að titlar myndu vissulega auka sjálfstraustið, en þeir væru þó ekki endilega hin heilaga mælistika á árangur. Liðið hefur komist í undanúrslit ýmissa keppna undir stjórn Solskjærs fjórum sinnum undanfarna tólf mánuði.

„Það er í starfslýsingu knattspyrnustjóra hjá Manchester United að vinna titla, jafnvel þótt það hafi ekki einu sinni bjargað Louis van Gaal eða José Mourinho,“ skrifar McNulty sem segir að frábær sigur United gegn nágrönnum sínum í Manchester City í úrvalsdeildinni á dögunum sé einfaldlega ekki nóg.

„Sigrar eins og þessi gegn Manchester City nýlega getur vissulega gefið sjálfstraust og sefað sálina, en Solskjær getur ekki endalaust talað sig í kringum það sem skiptir í raun og veru máli. Hann þarf að fara að vinna bikar fyrr frekar en síðar.“

United er komið í fjórðungsúrslit Evrópudeildarinnar og mætir þar spænska liðinu Granada í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert