Leicester City vann afar góðan 3:1 sigur á Manchester United þegar liðin áttust við í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu á King Power-vellinum í Leicester i kvöld.
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en þegar fyrri hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður tók Leicester forystuna. Fred gaf þá hræðilega sendingu til baka sem var ætluð Dean Henderson í marki Man Utd en hún var allt of stutt. Kelechi Iheanacho komst inn í sendinguna, fór framhjá Henderson og skoraði í autt markið, 1:0.
Fyrir markið hafði Fred tvisvar áður gefið frá sér boltann á hættulegum stað, í annað skiptið varði Henderson skot frá Jamie Vardy og í hitt skiptið komst Harry Maguire fyrir skot Vardy.
Á 38. mínútu jafnaði Man Utd metin. Pauk Pogba gaf þá fyrir frá vinstri eftir gott samspil við Alex Telles, Donny van de Beek lét boltann fara í gegnum klofið á sér og Mason Greenwood kom aðvífandi og lagði boltann örugglega í netið, 1:1.
Þannig stóðu leikar í hálfleik.
Snemma í síðari hálfleik komst Leicester yfir á ný. Youri Tielemans fékk þá að hlaupa alveg óáreittur í gegnum miðjuna, var kominn rétt innan vítateigs og náði mjög góðu, hnitmiðuðu skoti niður í bláhornið, 2:1.
Á 78. mínútu gerði Leicester svo út um leikinn. Marc Albrighton tók þá aukaspyrnu af vinstri kantinum, gaf á fjærstöngina þar sem Scott McTominay missti af boltanum. Á meðan lúrði Iheanacho þar, náði skallanum og Henderson varði hann í slána og inn, 3:1.
Þar við sat og Leicester varð þar með fjórða og síðasta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.
Í undanúrslitunum mætast því Leicester og Southampton og í hinum undanúrslitaleiknum mætast Chelsea og Manchester City. Báðir undanúrslitaleikirnir fara fram þann 17. apríl næstkomandi.