Mikill léttir fyrir Tottenham

Leikmenn Tottenham fögnuðu á Villa Park í kvöld.
Leikmenn Tottenham fögnuðu á Villa Park í kvöld. AFP

Leikmönnum Tottenham hefur sennilega verið létt eftir 2:0-sigur á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er liðin mættust á Villa Park í kvöld.

Lundúnaliðið var búið að tapa tveimur leikjum í röð, fyrst gegn nágrönnum og erkifjendum sínum í Arsenal um síðustu helgi áður en liðið fékk skell í Evrópudeildinni gegn Dinamo Zagreb á fimmtudaginn. Lærisveinar Josés Mourinhos máttu því varla við fleiri áföllum í kvöld.

Carlos Vinícius kom gestunum í forystu á 29. mínútu með sínu fyrsta úrvalsdeildarmarki. Hann fékk þá boltann frá Lucas Moura og skoraði af stuttu færi eftir vandræðagang í vörn heimamanna. Fyrirliðinn Harry Kane bætti svo við öðru marki úr vítaspyrnu á 68. mínútu eftir að brotið var á honum inni í vítateig.

Tottenham er nú með 48 stig í 6. sætinu, stigi á eftir West Ham í 5. sæti og þremur á eftir Chelsea í því fjórða. Aston Villa er í 10. sæti með 41 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert