Frank Worthington, sem um skeið var einn af vinsælustu knattspyrnumönnum Englendinga, er látinn, 72 ára að aldri, eftir langvarandi veikindi.
Worthington lék lengst með Huddersfield og Leicester á árunum 1966 til 1977 og spilaði átta leiki með enska landsliðinu árið 1974 og skoraði tvö mörk. Hann lék með Bolton, Birmingham, Leeds, Sunderland og Southampton á árunum 1979 til 1984, var m.a. inn á milli eitt sumar í Svíþjóð, og eftir það með fjölda minni félaga, á Englandi, Írlandi, í Bandaríkjunum og Suður-Afríku allt fram á fimmtugsaldurinn.
Hann skoraði 72 mörk fyrir Leicester í efstu deild á fimm árum þar og fjórtán mörk á einu tímabili fyrir Leeds, en samtals skoraði Worthington 260 deildamörk í 828 leikjum á ferlinum, frá 1966 til 1992.
Worthington var litríkur persónuleiki, innan vallar sem utan. Síðhærður í stíl við rokkara þess tímabils, flinkur leikmaður sem skoraði mörg mörk, spilaði aldrei með legghlífar og var með sokkana niðri á ökklum. Þá var hann ávallt sagður hafa notið hins ljúfa lífs eins og mögulegt var milli leikja.
Gary Lineker, knattspyrnusérfræðingur og fyrrverandi leikmaður Leicester og enska landsliðsins, sendi eftirfarandi kveðju á Twitter í morgun vegna andláts Worthingtons:
Margir aðrir hafa minnst Worthingtons í morgun: