Sóknarmennirnir Marcus Rashford og Bukayo Saka hafa dregið sig úr enska landsliðshópnum sem mætir Albaníu og Póllandi næstu daga í undankeppni HM í knattspyrnu í Katar 2022 vegna meiðsla.
Hvorugur þeirra lék í 5:0-sigrinum á San Marínó í gærkvöldi, en ekki er víst hversu alvarleg meiðslin eru.
Rashford fylgdist með leiknum gegn San Marínó úr stúkunni á Wembley í gær, en Saka varð eftir í herbúðum Arsenal. Vonast var til að hann kæmi til móts við hópinn síðar í vikunni, en ekkert verður úr því.
Gareth Southgate landsliðsþjálfari mun ekki kalla upp leikmenn í staðinn fyrir Rahsford og Saka.