Englandsmeistarar Liverpool í knattspyrnu reyndu að fá crossfitkonuna Söru Sigmundsdóttur til þess að stýra styrktaræfingu hjá félaginu.
Þetta staðfesti Snorri Barón, umboðsmaður Söru, í hlaðvarpsþættinum Steve Dagskrá þar sem hann ræddi málið.
Sara er á meðal fremstu crossfitkvenna heims í dag en hún er frá keppni út þetta ár eftir að hafa slitið krossband.
„Það var þannig að styrktar- og þolþjálfarar þessara félaga eru alltaf með opinn huga fyrir því sem er í gangi í heiminum,“ sagði Snorri.
„Andreas Kronmayer, sem er styrktar- og þolþjálfari Liverpool, hafði samband við Heimi Hallgrímsson fyrrverandi landsliðsþjálfara og hann hringdi í mig.
Kronmayer er með gríðarlegan áhuga á crossfit og hafði séð viðtal við Söru á CNN þar sem hann heillaðist af henni enda mjög auðvelt að gera það.
Það gæti verið gaman að henda handsprengju inn á æfingu hjá Liverpool og fá einhverja crossfittara til að hjálpa mér að drilla æfingarnar og setja þær upp,“ bætti Snorri meðal annars við.
Sara er harður stuðningsmaður Liverpool og fékk meðal annars senda treyju frá Virgil van Dijk, varnarmanni liðsins, á síðasta ári.