Knattspyrnumaðurinn Daníel Leó Grétarsson lék sinn fyrsta deildarleik á árinu er hann kom inn á sem varamaður hjá Blackpool og lék seinni hálfleikinn í svekkjandi 2:2-jafntefli á heimavelli gegn Plymouth í ensku C-deildinni í dag.
Daníel, sem hefur verið frá vegna meiðsla síðan í janúar, kom inn á í stöðunni 1:0 fyrir Plymouth í leikhléi.
Blackpool sneri taflinu við í seinni hálfleik með mörkum frá Sullay Kaikai og Jerry Yates. Joe Edwards jafnaði hins vegar metin fyrir Plymouth í uppbótartíma.
Blackpool er í sjötta sæti deildarinnar með 57 stig og í hörðum slag um sæti í umspili um sæti í B-deildinni, en 3.-6. sæti fara í umspil.