Stefnt er að því að áhorfendur verði á úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í vor, að sögn breska þingmannsins Olivers Dowden.
Hann sagði við Daily Mail í dag að úrslitaleikur bikarkeppninnar, sem fram fer á Wembley í London 15. maí, hafi verið valinn til þess að prófa hvort unnt sé að fara að hleypa áhorfendum á ný á stóra íþróttaviðburði í landinu.
Engir áhorfendur hafa verið á leikjum í enska fótboltanum eða á öðrum íþróttaviðburðum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar síðan í mars á síðasta ári, að undanskildum nokkrum leikjum í haust þar sem um tvö þúsund manns var hleypt inn á velli á nokkrum stöðum um skeið.
Bretum hefur gengið vel að bólusetja landsmenn á undanförnum vikum og eftir að hafa hafið kennslu í skólum á ný eru íþróttaviðburðir komnir ofarlega á blað þegar rætt erum að aflétta ströngum takmörkunum.
Dowden sagði við Daily Mail að þar væri m.a. horft til enska bikarúrslitaleiksins og heimsmeistaramótsins í snóker.
Fjögur lið eru eftir í ensku bikarkeppninni en Chelsea mætir Manchester City á Wembley 17. apríl og Leicester mætir Southampton degi síðar. Sigurliðin leika síðan til úrslita 15. maí.