Þrír landsliðsmenn sendir heim

Hal Robson-Kanu, fyrir miðju, í leik Wales og Mexíkó á …
Hal Robson-Kanu, fyrir miðju, í leik Wales og Mexíkó á föstudaginn. AFP

Þrír leikmenn velska karlalandsliðsins í knattspyrnu hafa verið sendir heim fyrir leik Walesbúa gegn Tékkum í undankeppni heimsmeistaramótsins.

Þetta eru Hal Robson-Kanu, leikmaður West Bromwich Albion, Rabbi Matondo, leikmaður Schalke og Tyler Roberts, leikmaður Leeds.

Þeir eru sagðir hafa brotið sóttvarnareglur velska knattspyrnusambandsins í landsliðsferðinni sem nú er í gangi en Wales tapaði 3:1 fyrir Belgíu síðasta þriðjudag og vann Mexíkó 1:0 í vináttulandsleik á laugardaginn.

Roberts var sá eini þeirra sem kom við sögu í leiknum við Belgíu en allir þrír léku gegn Mexíkó.

Ekki er nánar greint frá því hvers eðlis brot leikmannanna voru í tilkynningu velska sambandsins en The Athletic segir að þeir hafi ekki virt reglur þess um útivist eftir lokun að kvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert