Verður að fara ef hann vill vinna titla

Harry Kane í leik með Tottenham á tímabilinu.
Harry Kane í leik með Tottenham á tímabilinu. AFP

Jermain Defoe, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur, segir enska sóknarmanninn Harry Kane verða að yfirgefa liðið ætli hann sér einhvern tíma að vinna titla á ferlinum.

„Þú verður að vinna titla, annars er árangurinn hreinlega ekki nógu góður. Þegar þú nærð að afreka það og færð að upplifa þá tilfinningu sem fylgir því, vá. Ég vildi að ég hefði upplifað það fyrr á ferli mínum,“ sagði Defoe í samtali við talkSPORT.

Defoe, sem spilar nú með Rangers, vann enska deildabikarinn árið 2008 með Tottenham, sem er síðasti titill sem félagið vann. Hann varð Skotlandsmeistari með Rangers á dögunum og vann einnig skoska deildabikarinn á síðasta ári.

Ef Harry Kane vill vinna titla er útlit fyrir að hann verði að fara. Ég held að það verði ekki auðvelt fyrir hann að fara og hann gæti litið á það þannig að hann vilji verða markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins og sjá hvert það leiðir hann.

Hann getur vonandi unnið nokkra titla með Tottenham en ef hann vill ólmur vinna titla verður hann að fara til annars liðs,“ bætti Defoe við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert