Bjartsýnn með Rashford og Greenwood

Marcus Rashford hefur skorað 9 mörk í 29 leikjum United …
Marcus Rashford hefur skorað 9 mörk í 29 leikjum United í úrvalsdeildinni í vetur og hefur ekki enn misst af deildarleik á tímabilinu. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, er bjartsýnn á að hafa bæði Marcus Rashford og Mason Greenwood í sínum hópi í leiknum gegn Brighton í úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Rashford fór meiddur af velli í leik United og AC Milan í Evrópudeildinni 18. mars og Greenwood þurfti að draga sig út úr enska 21 árs landsliðinu fyrir úrslitakeppni EM á dögunum vegna meiðsla.

„Ef þeir komast í gegnum æfinguna á morgun ættu þeir að vera tilbúnir í leikinn,“ sagði Solskjær á fréttamannafundi í dag.

Anthony Martial er hins vegar meiddur en hann fór af velli í leik Frakka gegn Kasakstan um síðustu helgi og er ekki byrjaður að æfa á ný.

United leikur þar sinn fyrsta deildaleik í þrjár vikur, eða frá því liðið vann West Ham 1:0 þann 14. mars. United er í öðru sæti fyrir leiki helgarinnar, stigi á undan Leicester sem tekur á móti Manchester City, toppliðinu, á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert