Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Everton gæti á mánudaginn teflt fram leikmanni sem aldrei hefur spilað leik undir hans stjórn hjá félaginu.
Ancelotti tók við Everton í desember 2019 en þá voru þegar fjórir mánuðir síðan Jean-Philippe Gbamin, varnartengiliður frá Fílabeinsströndinni, lék síðast í bláu treyjunni.
Gbamin, sem er 25 ára gamall, kom til Everton frá Mainz í Þýskalandi í ágústbyrjun 2019 og hafði aðeins spilað tvo leiki þegar hann varð fyrir slæmum meiðslum á læri. Áður en hann gat byrjað að spila á ný sleit hann hásin í fæti. Meiðsli hafa nú samanlagt haldið honum frá keppni í hartnær 20 mánuði en Gbamin er loksins orðinn leikfær á ný.
„Hann er tilbúinn til að spila aftur og kemur í okkar lið með líkamlegan styrk, gæði og gríðarlegt hungur,“ sagði Ancelotti um Gbamin á fréttamannafundi í dag.
Ancelotti sagði að James Rodriguez væri búinn að jafna sig af meiðslum, hefði æft vel í landsleikjafríinu og gæti spilað gegn Crystal Palace á mánudaginn.
Eins væru Tom Davies og Ben Godfrey báðir í lagi þótt þeir hefðu misst af leik með 21 árs landsliðinu í vikunni. Abdoulaye Doucoure og Jordan Pickford markvörður eru hins vegar báðir áfram frá keppni vegna meiðsla.