Get ekki bannað leikmönnum að spila á EM

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir það ekki vera sitt að meina leikmönnum sínum sem eru að glíma við meiðsli þessa stundina að spila á EM í sumar, verði þeir tilbúnir til þess.

Jordan Henderson, Joe Gomez og Virgil van Dijk eru allir lengi frá vegna meiðsla en eiga þó möguleika á að vera búnir að jafna sig í tæka tíð fyrir EM. „Satt að segja hef ég ekki hugmynd um EM. Það hefur ekkert breyst, þeir eru allir á þeim stað sem þeir eiga að vera sem stendur. Tíminn mun leiða hitt í ljós.

Ég veit ekkert um það, ég vil ekki standa í vegi fyrir því að leikmenn spili fyrir England eða Holland. Ef þeir eru tilbúnir eru þeir tilbúnir og ef ekki þá get ég ekki breytt því. Sem stendur eru þeir í endurhæfingu þannig að það er ekki mitt að taka ákvörðun,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.

Hann bætti því við að Henderson gæti ekki æft sem stendur en að hann muni mæta til æfinga á næstu vikum. Lengra er hins vegar í van Dijk, Gomez og Joel Matip.

Þá er Divock Origi enn meiddur og varamarkvörðurinn Caoimhin Kelleher sömuleiðis, en Roberto Firmino er snúinn aftur til æfinga eftir að hafa misst af síðustu þremur leikjum Liverpool fyrir nýyfirstaðið landsleikjahlé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert