Manchester City, verðandi Englandsmeistarar, kaupa væntanlega engan framherja í sumar, samkvæmt því sem Pep Guardiola knattspyrnustjóri hélt fram á fréttamannafundi í dag.
Sergio Agüero fer frá félaginu án greiðslu í sumar og leikmenn á borð við Lionel Messi, Erling Braut Haaland og Harry Kane hafa verið sterklega orðaðir við City fyrir næsta tímabil en Guardiola slær á slíkar fregnir. Báðir leikmenn eru taldir kosta í kringum 100 milljónir punda.
„Við erum með nóg af leikmönnum í okkar aðalliðahópi og eigum áhugaverða leikmenn í akademíunni. Í dag eru mestar líkur á að við kaupum ekki framherja fyrir næsta tímabil, vegna fjármálastöðunnar í heiminum um þessar mundir. Miðað við þá verðmiða sem settir eru á leikmenn munum við ekki kaupa sóknarmann. Það er útilokað, við höfum ekki efni á því. Öll félög eru í fjárhagsvandræðum og við erum ekki undanskildir því,“ sagði Guardiola.
„Við erum með Gabriel Jesus, við erum með Ferran Torres sem hefur spilað frábærlega í þessari stöðu á tímabilinu, við erum með unga leikmenn í akademíunni og við spilum oft án þess að vera með eiginlegan framherja. Ég veit ekki hvað gerist, kannski gerist það, en kannski kaupum við engan sóknarmann. Í dag eru meiri líkur en minni á að það gerist ekki,“ sagði Guardiola enn fremur.