Höfum ekki efni á að kaupa sóknarmann

Pep Guardiola mun kveðja Sergio Agüero að þessu tímabili loknu.
Pep Guardiola mun kveðja Sergio Agüero að þessu tímabili loknu. AFP

Manchester City, verðandi Englandsmeistarar, kaupa væntanlega engan framherja í sumar, samkvæmt því sem Pep Guardiola knattspyrnustjóri hélt fram á fréttamannafundi í dag.

Sergio Agüero fer frá félaginu án greiðslu í sumar og leikmenn á borð við Lionel Messi, Erling Braut Haaland og Harry Kane hafa verið sterklega orðaðir við City fyrir næsta tímabil en Guardiola slær á slíkar fregnir. Báðir leikmenn eru taldir kosta í kringum 100 milljónir punda.

„Við erum með nóg af leikmönnum í okkar aðalliðahópi og eigum áhugaverða leikmenn í akademíunni. Í dag eru mestar líkur á að við kaupum ekki framherja fyrir næsta tímabil, vegna fjármálastöðunnar í heiminum um þessar mundir. Miðað við þá verðmiða sem settir eru á leikmenn munum við ekki kaupa sóknarmann. Það er útilokað, við höfum ekki efni á því. Öll félög eru í fjárhagsvandræðum og við erum ekki undanskildir því,“ sagði Guardiola.

„Við erum með Gabriel Jesus, við erum með Ferran Torres sem hefur spilað frábærlega í þessari stöðu á tímabilinu, við erum með unga leikmenn í akademíunni og við spilum oft án þess að vera með eiginlegan framherja. Ég veit ekki hvað gerist, kannski gerist það, en kannski kaupum við engan sóknarmann. Í dag eru meiri líkur en minni á að það gerist ekki,“ sagði Guardiola enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert