LeBron James eykur áhrif sín hjá Liverpool

LeBron James, fyrir miðju, á heimaleik Liverpool á Anfield. Hann …
LeBron James, fyrir miðju, á heimaleik Liverpool á Anfield. Hann verður væntanlega tíðari gestur þar þegar áhorfendum verður leyft að mæta á leiki á nýjan leik. AFP

LeBron James, einn fremsti körfuboltamaður heims á síðari árum, hefur aukið hlutafé sitt í enska knattspyrnufélaginu Liverpool og talið er að hann muni taka meiri þátt en áður í ákvörðunum um rekstur þess.

Bandaríska fyrirtækið Fenway Sports Group er aðaleigandi bæði Liverpool og bandaríska hornaboltaliðsins Boston Red Sox. LeBron James hefur verið hluthafi í Fenway Sports Group í tíu ár, eða frá árinu 2011, en nú hafa hann og Maverick Carter, viðskiptafélagi hans, bætt 750 milljónum dollara inn í reksturinn og eru því orðnir enn valdameiri en áður í fyrirtækinu.

Skýrt var frá þessu á miðvikudaginn og stjórnarformaður Liverpool og Red Sox, Tom Warner, fagnaði þessum tímamótum og staðfesti að LeBron James myndi taka meiri þátt en áður í stórum ákvörðunum varðandi reksturinn.

„Það kæmi mér á óvart ef þeir James og Carter myndu ekki láta til sín taka og við tökum þeim fagnandi. Við höfum átt gott samstarf við þá og ég myndi segja að þekking þeirra og reynsla ætti að verða okkur ákaflega dýrmæt í framtíðaráformum okkar,“ sagði Werner í viðtali við The Athletic.

LeBron, sem er 35 ára gamall og í lykilhlutverki hjá NBA-meisturum Los Angeles Lakers, hefur áður rætt um áhuga sinn á því að verða aðaleigandi íþróttafélags þegar ferli hans í körfuboltanum lýkur. 

„Þetta höfðar mjög sterkt til hans. Hann veit vel að hann er að setja ný viðmið og skrifa nýja sögu sem Bandaríkjamaður af afrísku ætterni sem er enn virkur sem íþróttamaður. Þegar þú ferð inn á þessa braut opnar það leið til nýrra tækifæra sem ekki hefði verið hægt að ímynda sér,“ segir Paul Watcher, fjárhagslegur ráðgjafi þeirra James og Carters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert