N'Golo Kanté, miðjumaður Chelsea, missir af næstu leikjum liðsins en knattspyrnustjórinn Thomas Tuchel staðfesti það í dag.
Miðjumaðurinn var sendur heim til London eftir leik Frakklands og Úkraínu í undankeppni heimsmeistaramótsins í vikunni en hann tognaði aftan í læri í seinni hálfleiknum. Tuchel staðfesti svo á blaðamannafundi í dag að Kanté verður ekki með í næstu tveimur leikjum Chelsea.
Liðið mætir West Brom í ensku úrvalsdeildinni á morgun og svo portúgalska liðinu Porto í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu á miðvikudaginn. Kanté missir alla vega af þessum tveimur leikjum en gæti verið klár í slaginn um næstu helgi er Chelsea heimsækir Crystal Palace.