Kelechi Iheanacho, framherji Leicester City, hefur verið valinn leikmaður mánaðarins í mars í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Iheanacho fór á kostum og skoraði fimm mörk í þeim þremur deildarleikjum sem fóru fram í mánuðinum.
Hann skoraði sína fyrstu þrennu í ensku úrvalsdeildinni í 5:0 sigri gegn Sheffield United og skoraði einnig í 2:1 sigri gegn Brighton & Hove Albion og í 1:1 jafntefli gegn Burnley.
Fyrir marsmánuð var Iheanacho búinn að skora aðeins eitt deildarmark í 13 leikjum en er nú kominn á mjög gott ról með Leicester, sem hefur átt frábært tímabil, er í þriðja sæti deildarinnar og stefnir þar með hraðbyri í átt að því að tryggja sér Meistaradeildarsæti.
Leicester tekur á móti Manchester City, liðinu sem Iheanacho kom frá, í stórslag í ensku úrvalsdeildinni á morgun.