Kelechi Iheanacho, framherji Leicester City, hefur framlengt samning sinn við félagið daginn eftir að hann var valinn leikmaður mánaðarins í mars í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Framherjinn er 24 ára og hefur framlengt samning sinn um þrjú ár við félagið, eða þangað til sumarið 2024. Iheanacho hefur skorað sjö mörk í síðustu fjórum leikjum sínum í öllum keppnum og fór á kostum í úrvalsdeildinni í mars, skoraði fimm mörk í þremur deildarleikjum.
Nígeríumaðurinn virðist vera að finna sitt besta form eftir erfiðan vetur. Fyrir marsmánuð var Iheanacho búinn að skora aðeins eitt deildarmark í 13 leikjum en er nú kominn á mjög gott ról með Leicester, sem hefur átt frábært tímabil, er í þriðja sæti deildarinnar og stefnir þar með hraðbyri í átt að því að tryggja sér Meistaradeildarsæti.
Leicester tekur á móti toppliði Manchester City í kvöld.