Kieran Tierney, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla.
Þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag en Tierney skaddaði liðbönd í hné í 3:0-tapi Arsenal gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í London um síðustu helgi.
Tierney þurfti að fara af velli vegna meiðslanna í fyrri hálfleik en hann verður frá í fjórar til sex vikur.
Bakvörðurinn, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við Arsenal frá uppeldisfélagi sínu Celtic síðasta sumar fyrir 25 milljónir punda.
Hann hefur byrjað 23 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað eitt mark og lagt upp önnur tvö.