Naby Keita og Trent Alexander-Arnold, leikmenn Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu, urðu fyrir kynþáttaníði í aðrdraganda leiks Liverpool og Real Madrid í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Spáni í gær.
Sky Sports greinir frá þessu en leiknum, sem var fyrri leikur liðanna í átta liða úrslitum keppninnar, lauk með 3:1-sigri Real Madrid í Madríd.
Báðir leikmenn, sem eru dökkir á hörund, birtu myndir á samfélagsmiðlinum Instagram í aðdraganda leiksins en óprúttnir aðilar birtu myndir af öpum í ummælum undir myndunum.
„Enn og aftur erum við að ræða kynþáttaníð daginn eftir mikilvægan leik,“ sagði talsmaður Liverpool í samtali við Sky Sports.
„Þetta er gjörsamlega ólíðandi og þarf að stoppa strax,“ bætti talsmaðurinn við.
Forráðamenn Facebook, sem eiga Instagram, sögðu í samtali við Sky Sports að þeir væru nú með málið til rannsóknar.