„Þessi hugmynd hefur verið fordæmd af nánast öllum,“ sagði Gary Neville, sparkspekingur hjá Sky Sports, um hugsanlega stofnun nýrrar ofurdeildar hjá stærstu félögum Evrópu.
Í dag bárust fréttir af því að sex stærstu félög Englands, ásamt stærstu félögum Ítalíu og Spánar, hygðust segja skilið við Meistaradeild Evrópu til þess að stofna sína eigin ofurdeild.
Áformin kveða á um að stofnuð verði tuttugu liða deild, með fimmtán föstum liðum, sem verður keppt í árlega en félög á borð við Liverpool, Manchester United, Manchester City, Arsenal, Chelsea, Tottenham, Real Madrid, Barcelona, Juventus og AC Milan standa að baki hugmyndinni.
„Ég hef verið stuðningsmaður Manchester United í fjörutíu ár en ég er með óbragð í munninum yfir þessu. Það er hreinn viðbjóður að sjá félög á borð við Liverpool og Manchester United standa á bak við svona hugmynd.
Liverpool er félag sem stærir sig af því að þar séu allir hluti af einni heild og að hjá félaginu gangi maður aldrei einn. United er félag byggt upp af verkamönnum frá Manchester og þeir ætla sér að taka þátt í keppni þar sem er engin keppni ef svo má segja. Þetta er algjört djók.
Þetta er ekkert nema græðgi og þetta er hugmynd eigendanna, ekki félaganna. Það þarf að vernda félögin fyrir þessum eigendum því þegar allt kemur til alls eru það stuðningsmennirnir sem skipta mestu máli í fótbolta, ekki peningar. Ég er ekki á móti peningum í fótbolta en þetta er of mikið.
Manchester United er ekki í Meistaradeildinni, ekki Arsenal né Tottenham. Það er kominn tími til að stoppa þessi félög því nú er nóg komið. Það þarf að taka peninginn af þessum liðum, taka stigin af þeim og dæma þau niður um deild. Þetta er glæpsamlegt athæfi,“ bætti Neville við.