Skipuleggjendur fyrirhugaðrar ofurdeildar í knattspyrnu staðfestu í kvöld að til stæði að stofna nýja ofurdeild sem samanstæði af öllum sterkustu liðum Evrópu.
Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem félögin sendu frá sér í kvöld en AC Milan, Arsenal, Atlético Madrid, Chelsea, Barcelona, Inter Mílanó, Juventus, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Real Madrid og Tottenham hafa öll samþykkt að koma á fót nýrri deild.
Til stendur að leikir í ofurdeildinni fari fram í miðri viku en félögin ætla sér öll að halda áfram keppni heima fyrir í sínum deildum.
„Við hlökkum til að setjast niður með forráðamönnum UEFA og FIFA og vonumst til þess að samstarfið verði sem farsælast,“ segir í tilkynningu frá ofurdeildinni.
„Stofnendur ofurdeildarinnar telja að með tilkomu ofurdeildarinnar fá stuðningsmenn fleiri spennandi leiki sem og að fjármagnsflæðið í fótboltanum verði meira,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Margir hafa fordæmt stofnun ofurdeildarinnar eftir að fréttir bárust af því að stærstu félög Evrópu hygðust koma henni á laggirnar, þar á meðal Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United.