Stuðningsklúbburinn Spirit of Shankly sendi í kvöld frá sér áskorun til stjórnar knattspyrnufélagsins Liverpool um að endurskoða afstöðu sína til þátttöku í hinni svokölluðu „ofurdeild“.
Eftir að Manchester City dró sig út úr ofurdeildinni og ljóst var að Chelsea myndi gera slíkt hið sama er ljóst að stuðingsfólk Liverpool bíður óþreyjufullt eftir því að þeirra félag geri slíkt hið sama.
„Spirit of Shankly harmar að sjá að eigendur félagsins, FSG, skuli enn hanga á þessum brotna draumi um evrópska „ofurdeild“.
Við skorum á stjórn FSG að draga félagið okkar út úr þessu stórslysadæmi og endurskoða stöðu sjálfra sín um leið,“ segir m.a. í áskoruninni frá klúbbnum sem er kenndur við Bill Shankly, knattspyrnustjóra Liverpool frá 1959 til 1974, sem gerði félagið að stórveldi í enskum fótbolta á sínum tíma og innleiddi þau gildi sem það hefur unnið eftir.
Þá var skýrt frá því fyrir stundu að einn af stærri styrktaraðilum Liverpool, úrsmíðafyrirtækið Tribus, hefði ákveðið að hætta samstarfi við félagið vegna þátttöku þess í undirbúningnum að stofnun ofurdeildarinnar.