Gylfi: Verið að skíta yfir stuðningsmenn

„Þetta er bara djók,“ sagði Gylfi Einarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, í Vellinum á Síminn Sport í gær um nýja ofurdeild sem tólf af stærstu félögum Evrópu hyggjast setja á laggirnar.

Mikið hefur verið rætt og ritað um stofnun deildarinnar undanfarna daga en félögin sem standa að baki hugmyndinni eru AC Milan, Arsenal, Atlético Madrid, Chelsea, Barcelona, Inter Mílanó, Juventus, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Real Madrid og Tottenham.

„Öll þessi pæling í kringum ofurdeildina er til skammar og fótboltinn er ekkert án stuðningsmanna eins og hefur áður komið fram. Það er því verið að skíta yfir stuðningsmenn með þessari hugmynd,“ sagði Gylfi meðal annars.

„Þetta eru risafréttir,“ sagði Bjarni Þór Viðarsson og tók undir orð Gylfa.

„Ég er íhaldssamur og vil hafa hlutina óbreytta. Þetta myndar óeiningu innan fótboltaheimsins og það eru allir brjálaðir.

Maður veit ekki hvernig þetta verður en mér líst alls ekki vel á þetta,“ bætti Bjarni við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert