Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Chelsea hafa tekið ákvörðun um að taka ekki þátt í fyrirhugaðri ofurdeild.
Það er BBC sem greinir frá þessu en fyrr í vikunni bárust fréttir af því að tólf af stærstu liðum Evrópu ætluðu sér að stofna nýja evrópska ofurdeild og hætta þátttöku í Evrópukeppnum á vegum UEFA.
Hugmyndirnar hafa ekki fallið í góðan jarðveg hjá knattspyrnuáhugafólki og var fjöldi stuðningsmanna Chelsea mættur fyrir utan heimavöll félagsins Stamford Bridge í dag til að mótmæla aðgerðunum.
Chelsea tekur á móti Brighton í ensku úrvalsdeildinni klukkan 19 en hundruð stuðningsmanna liðsins eru nú staddir fyrir utan Stamford Bridge þar sem þeir mótmæla þátttöku í fyrirhugaðri ofurdeild.
Enska úrvalsdeildarfélagið hefur ekki staðfest þessar fréttir en samkvæmt frétt BBC er nú unnið að því að draga liðið úr keppni.