Segja skilið við ofurdeildina

Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City verða ekki …
Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City verða ekki með í fyrirhugaðri ofurdeild. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester City mun ekki taka þátt í fyrirhugaðri ofurdeild.

Það er BBC sem greinir frá þessu en félagið hefur nú þegar tilkynnt forráðamönnum ofurdeildarinnar að það muni ekki taka þátt í deildinni samkvæmt breska miðlinum.

BBC greindi einnig frá því fyrr í kvöld að Chelsea ætlaði sér að hætta við þátttöku í deildinni og því virðast nú tvö ensk lið ætla að draga sig úr keppni.

Um 1.000 stuðningsmenn Chelsea voru mættir fyrir utan heimavöll Chelsea, Stamford Bridge, í kvöld til þess að mótmæla þátttöku í deildinni.

Frá því að fréttir bárust fyrst af því að tólf af stærstu félögum Evrópu ætluðu sér að stofna sína eigin ofurdeild, og hætta þátttöku í Evrópukeppnum á vegum UEFA, hefur allt logað í knattspyrnuheiminum.

Ásamt Chelsea og Manchester City koma AC Milan, Arsenal, Atlético Madrid, Barcelona, Inter Mílanó, Juventus, Liverpool, Manchester United, Real Madrid og Tottenham öll að stofnun deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert