Rodri reyndist hetja Manchester City þegar liðið heimsótti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Villa Park í Birmingham í kvöld.
Leiknum lauk með 2:1-sigri City en Rodri skoraði sigurmark leiksins í fyrri hálfleik.
Leikurinn byrjaði fjörlega því John McGinn kom Aston Villa yfir eftir 45 sekúndur áður en Phil Foden jafnaði metin fyrir City á 22. mínútu.
Rodri kom svo City yfir á 40. mínútu áður en John Stones, varnarmaður City, fékk að líta beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu.
Matty Cash, bakvörður Aston Villa, fékk hins vegar að líta tvö gul spjöld með þriggja mínútna millibili í upphafi síðari hálfleiks og leikmönnum Villa tókst því aldrei að nýta sér liðsmuninn almennilega.
City er með 77 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur ellefu stiga forskot á Manchester United en United á leik til góða.
Aston Villa er í ellefta sætinu með 44 stig, ellefu stigum frá Evrópusæti.