Son Heung-min reyndist hetja Tottenham þegar liðið tók á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Tottenham Hotspur-vellinum í London í dag.
Leiknum lauk með 2:1-sigri Tottenham en Son skoraði sigurmark leiksins með marki úr vítaspyrnu á 90. mínútu.
Ryan Mason, sem er aðeins 29 ára gamall, stýrði Tottenham í fyrsta sinn en hann tók við liðinu til bráðabirgða af José Mourinho sem var rekinn á mánudaginn. Mason er yngsti stjórinn í sögu úrvalsdeildarinnar.
Danny Ings kom Southampton yfir á 30. mínútu en Garteh Bale jafnaði metin fyrir Tottenham á 60. mínútu.
Son kom Tottenham yfir á 75. mínútu en markið var dæmt af þar sem Lucas Moura, sóknarmaður Tottenham, var rangstæður og byrgði Alex McCarthy í marki Southampton sýn.
Á 89. mínútu braut Moussa Djenepo á Harry Winks, að því er virtist utan teigs, en eftir að atvikið hafði verið skoðað var vítaspyrna dæmd sem Son skoraði af öryggi úr.
Tottenham fer með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar í 53 stig, jafn mörg stig og Liverpool, en Liverpool á leik til góða.
Southampton er í fjórtánda sæti deildarinnar með 36 stig, níu stigum frá fallsæti.