Bruno setur skilyrði fyrir nýjum samningi

Paul Pogba og Bruno Fernandes fagna saman.
Paul Pogba og Bruno Fernandes fagna saman. AFP

Bruno Fernandes er tilbúinn að endurnýja samning sinn við Manchester United að einu skilyrði uppfylltu.

Portúgalinn hefur leikið á als oddi með United síðan hann kom til Manchester í janúar á síðasta ári, skoraði 24 mörk í 36 úrvalsdeildarleikjum. Hann er samningsbundinn félaginu til 2024 en forráðamenn United vilja engu að síður lengja samning leikmannsins og hækka hann í launum til að koma í veg fyrir að félög á borð við Real Madríd reyni að kaupa hann.

Enska götublaðið The Sun segir frá því að Fernandes sé tilbúinn að semja, svo lengi sem samherji hans Paul Pogba geri það líka. Franski miðjumaðurinn hefur verið öflugur undanfarna mánuði og hafa þeir Fernandes myndað frábært miðjupar á tímabilinu. Pogba er samningsbundinn United til sumarsins 2022 en hann hefur áður sagst vilja róa á önnur mið.

United mun annaðhvort selja Pogba í sumar, til að koma í veg fyrir að hann yfirgefi félagið á frjálsri sölu, eða bjóða honum nýjan samning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert