Leicester vann 3:0-sigur á West Brom er liðin mættust í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Með sigrinum styrkti Leicester stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar en liðið var ekki búið að vinna í síðustu tveimur leikjum sínum.
Heimamenn skoruðu öll mörkin sín á 13 mínútna kafla í fyrri hálfleik. Jamie Vardy kom Leicester yfir á 23. mínútu og Jonny Evans bætti við marki þremur mínútum síðar með skalla í kjölfar hornspyrnu. Kelechi Iheanacho skoraði svo þriðja markið á 36. mínútu eftir góðan undirbúning Vardy.
Leicester er nú með 59 stig í þriðja sæti, sjö stigum á eftir Manchester United og fjórum á undan Chelsea. West Brom er aftur á móti í slæmri stöðu, liðið er í 19. sæti með 24 stig, níu stigum frá öruggu sæti.