Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var ánægður með frammistöðu liðsins í 2:1 sigrinum gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í gær og segir liðið vera afskaplega nálægt því að tryggja sér sigur í deildinni.
Aston Villa komst yfir eftir 23 sekúndna leik. „Þetta var engin draumabyrjun en við brugðumst mjög vel við. Við spiluðum svo vel með og án boltans, 10 gegn 11 brugðumst við vel við og spiluðum svo vel,“ sagði Guardiola eftir leik í gær.
John Stones fékk beint rautt spjald skömmu fyrir leikhlé. „Hann var seinn í tæklinguna en hann ætlaði ekki að sparka í manninn, hann myndi ekki fara í svona tæklingu af ásetningi. Þetta markast ekki af árásargirni, hann er bara seinn.
Þetta er erfitt, hann hefur spilað margar mínútur og þetta er gott fyrir hann að læra af. Þegar við vorum einum færri spiluðum við vel, sérstaklega þegar við vorum með boltann,“ bætti hann við.
Guardiola sagði svo áætlanir um „ofurdeild“ ekki hafa truflað leikmenn og sagðist spenntur fyrir næstu leikjum. „Það leit ekki út fyrir það, við vorum einbeittir. Auðvitað höfðu allir áhyggjur en leikmennirnir voru einbeittir á leikinn. Við erum svo nálægt þessu. Bikarúrslitaleikur um helgina, svo Meistaradeildin og svo Crystal Palace.“