Arsenal tapaði sjöunda heimaleik sínum á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er liðið mátti þola 1:0-tap gegn Everton á Emirates-leikvanginum í kvöld.
Arsenal hefur aðeins unnið sex af 17 heimaleikjum sínum á leiktíðinni og situr sem stendur í 9. sæti deildarinnar eftir 33 leiki, 31 stigi frá toppnum. Mikel Arteta, knattspyrnustjóri liðsins, segir árangurinn einfaldlega óviðunandi.
„Við vorum betra liðið en við getum ekki stjórnað öllu. Það er tekin af okkur vítaspyrna, ég skil ekki af hverju eða hvernig,“ sagði Spánverjinn en Arsenal hafði fengið dæmda vítaspyrnu áður en VAR skoðaði atvikið og komst að þeirri niðurstöðu að Nicolas Pépé hefði verið rangstæður í aðdragandanum.
Aðspurður um gengi Arsenal á heimavelli var hann svo ómyrkur í máli: „Árangurinn er hræðilegur og óviðunandi.“