Tækifæri gæti skapast fyrir Manchester United að endurheimta Cristiano Ronaldo en hann gæti yfirgefið Juventus í sumar.
Gazzetta dello Sport heldur því fram að Ronaldo sé reiðubúinn að fara frá Juventus í sumar ef eitthvað spennandi býðst en samningur hans við Juventus rennur út sumarið 2022.
Ítalska stórliðið er í fjárhagserfiðleikum meðal annars vegna kórónuveirunnar og liðið er nú að missa af ítalska meistaratitlinum í fyrsta skipti í áratug.
Forráðamenn Juventus horfa til þess að þeir gætu fengið ágæta upphæð fyrir Ronaldo þótt hann sé 36 ára gamall. Ef Portúgalinn skiptir um félag myndi það einnig létta verulega á launagreiðslum hjá Juventus.
Á Old Trafford hafa forráðamenn United lengi verið opnir fyrir þeirri hugmynd að fá Ronaldo aftur til félagsins en hann var í herbúðum liðsins frá 2003 til 2009.