Lykilmenn byrjaðir að æfa fyrir úrslitaleikinn

Kevin de Bruyne fór meiddur af velli á Wembley um …
Kevin de Bruyne fór meiddur af velli á Wembley um síðustu helgi. AFP

Tveir af lykilmönnum Manchester City æfðu með liðinu í morgun en City mætir Tottenham í úrslitaleik enska deildabikarsins á Wembley á sunnudaginn.

Sergio Agüero hefur verið mikið frá á tímabilinu vegna hnémeiðsla og þá fékk hann einnig kórónuveiruna í vor. Hann hefur misst af síðustu fimm leikjum liðsins en gat tekið þátt í æfingu í dag. Þá var Belginn Kevin de Bruyne einnig með, en hann fór meiddur af velli í leik City og Chelsea í undanúrslitum enska bikarsins í síðustu viku.

Í fyrstu var talið að hann gæti verið frá í allt að fimm vikur en meiðslin voru ekki svo alvarleg. „Sergio og Kevin gátu báðir æft í dag, við æfum aftur á morgun og sjáum svo til hvernig standið á þeim verður,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, við blaðamenn í dag.

„Það er stutt í Meistaradeildina og úrvalsdeildin er ekki búin, þær keppnir skipta enn meira máli,“ bætti Spánverjinn við. City spilar úrslitaleikinn á sunnudaginn og mætir svo franska liðinu PSG í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert