Þúsundir stuðningsmanna enska knattspyrnufélagsins Arsenal eru mættir fyrir utan leikvang liðsins til að mótmæla eignarhaldi bandaríska auðkýfingsins Stan Kroenke á félaginu.
Kroenke var einn þeirra sem studdi áformin um ofurdeildina svokölluðu og ætlaði Arsenal að taka þátt í stofnun hennar. Eftir mikla óánægju innan knattspyrnuhreyfingarinnar dró félagið þau áform til baka.
Stuðningsmannasamtök Arsenal sendu á dögunum frá sér yfirlýsingu þar sem þau kváðust ætla að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að berjast gegn þessari græðgi. Þótt Kroenke og Arsenal hafi dregið áform sín um ofurdeildina til baka vilja stuðningsmennirnir nú losna við Bandaríkjamanninn.
Samkvæmt frétt The Sun eru þúsundir stuðningsmanna fyrir utan Emirates-leikvanginn núna en Arsenal mætir Everton þar í ensku úrvalsdeildinni klukkan 19 í kvöld.