Dýrmætt sigurmark Werners í Lundúnum

Ben Chilwell með boltann í leiknum í dag. Vladimir Coufal …
Ben Chilwell með boltann í leiknum í dag. Vladimir Coufal fylgist með. AFP

Chelsea vann gríðarlega mikilvægan sigur í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð er liðið lagði West Ham að velli, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Bæði lið eru í harðri baráttu um 4. sætið en fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í 4. og 5. sæti með 55 stig. Leikurinn fór heldur rólega af stað milli þessara nágrannaliða í Lundúnum en það voru gestirnir í Chelsea sem brutu ísinn rétt fyrir hálfleik.

Þjóðverjinn Timo Werner skoraði á 43. mínútu, hans fyrsta mark fyrir liðið síðan í febrúar. Werner skýldi þá knettinum sjálfur frá varnarmanni, gaf hann á Christian Pulsiic sem kom honum á vinstri kantinn. Þar kom Ben Chilwell með frábæra fyrirgjöf og Werner skaut í fyrsta, kom boltanum í netið.

Heimamenn reyndu að færa sig upp á skaftið eftir hlé en róðurinn þyngdist á 81. mínútu þegar Fabián Balbuena fékk beint rautt spjald. Varnarmaðurinn var sjálfur með boltann en eftir að hafa spyrnt honum upp völlinn rak hann takkana í sköflunginn á Ben Chilwell sem féll við sárþjáður. Eftir langa athugun VAR var ákveðið að reka Balbuena af velli.

Gestirnir, manni fleiri, héldu forystu sinni til loka og sóttu þar með þrjú dýrmæt stig. Þeir eru nú með þriggja stiga forystu í 4. sætinu þegar fimm umferðir eru óleiknar. West Ham er áfram með 55 stig í 5. sæti, stigi á undan Liverpool og tveimur á undan Tottenham. Svo er Everton í 8. sætinu með 52 stig en liðið á leik til góða.

West Ham 0:1 Chelsea opna loka
90. mín. Fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert