Fótboltastjörnurnar sniðganga samfélagsmiðla

Marcus Rashford og aðrir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar krjúpa á hné …
Marcus Rashford og aðrir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar krjúpa á hné fyrir leiki til að mótmæla mismunun og kynþáttahatri. AFP

Enska knattspyrnuhreyfingin hefur sameinast um að sniðganga alla samfélagsmiðla í fjóra sólarhringa til að mótmæla öllum þeim svívirðingum og þeirri mismunun sem knattspyrnumenn verða fyrir.

Átakið hefst 30. apríl og mun standa yfir í fjóra sólarhringa. Á þeim tíma mun enginn leikmaður eða aðstandandi efstu deilda karla og kvenna á Englandi nota samfélagsmiðla á borð við Twitter, Facebook og Instagram.

„Samfélagsmiðlar eru því miður í auknu mæli orðnir pallur fyrir svívirðingar og ærumeiðandi ummæli,“ segir í yfirlýsingu frá formanni Kick it Out-samtakanna sem berjast gegn kynþáttamismunun í fótbolta. „Með því að hætta á þessum miðlum viljum við biðla til þeirra sem valdið hafa, með táknrænum hætti, um að gera meira til að sporna við þessari þróun.“

Leikmenn á borð við Marcus Rashford hjá Manchester United og Trent Alexander-Arnold hjá Liverpool hafa orðið fyrir barðinu á kynþáttaníði á samfélagsmiðlum og hafa þeir, ásamt fleirum, kallað eftir aðgerðum sem þessum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert