Getum kannski fundið 400 daga á ári

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er ekki mjög hrifinn af fyrirhuguðum breytingum UEFA á Meistaradeild Evrópu.

UEFA áætlar að breyta núverandi fyrirkomulagi á keppninni frá og með árinu 2024 á þann hátt að fjögur lið bætast við og riðlakeppni leggst af. Í stað sex leikja í riðlakeppni myndi hvert lið spila að minnsta kosti 10 leiki í deildakeppni.

„Þetta er alltaf sama sagan. Um allan heim er fótboltinn að biðja um meiri gæði og fótboltaheimurinn vill þá frekar magn. Við stjórnum þessu ekki. Við verðum að biðja UEFA og FIFA að lengja árið. Kannski getum við fundið 400 daga á ári,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í gær.

Hann hélt áfram: „Ég er ekki sérfræðingur í uppsetningu Meistaradeildarinnar. Fólkið sem sér um að útbúa dagskrána hugsar ekki um endurheimt leikmanna, það gerir öfugt því þetta er þeirra starf og hagsmunir.“

Guardiola sagði knattspyrnustjóra í raun ekki geta gert neitt annað en að viðra áhyggjur sínar. „Ég get ekki sagt þeim að gera neitt. Úrvalsdeildin, UEFA, FIFA, við getum sagt okkar skoðun en eftir það getum við ekki gert neitt.

Því verði liðin í Meistaradeildinni líklega einfaldlega að sætta sig við breytingarnar

„Ef þeir ákveða að það verði 10 leikir til viðbótar þá verða 10 leikir til viðbótar. Sýningin verður að halda áfram. Það er mitt að undirbúa leikmenn. Ef það verða 56 lið á HM þá verða 56 lið á HM,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert