Liverpool og Newcastle United gerðu 1:1 jafntefli í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Varamaðurinn Joe Willock jafnaði metin fyrir Newcastle á fimmtu mínútu uppbótartíma.
Heimamenn í Liverpool tóku forystuna snemma leiks, eða strax á þriðju mínútu. Sadio Mané gaf þá fyrir, Federico Fernández skallaði boltann til hliðar en ekki langt, Mohamed Salah náði frábærri snertingu, sneri Matt Ritchie af sér og negldi boltanum í nærhornið af stuttu færi, 1:0.
Leikurinn var áfram fjörugur og fengu leikmenn Liverpool nokkur dauðafæri til að bæta við, auk þess sem Sean Longstaff slap í gegn á 20. mínútu eftir frábæra stungusendingu Jonjo Shelvey en Alisson gerði vel í að verja skot Longstaff af stuttu færi.
Diogo Jota fékk nokkur mjög góð færi, Mané sömuleiðis og Salah komst í dauðafæri einn gegn Martin Dúbravka í marki Newcastle en skot Egyptans mjög slappt.
Liverpool auðnaðist því ekki á einhvern ótrúlegan hátt að bæta við marki fyrir leikhlé og staðan 1:0 í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var ekki jafn fjörugur. Liverpool var áfram með undirtökin en fengu ekki jafn mikið af góðum færum, þó þau hafi vissulega verið einhver. Roberto Firmino komst til að mynda nálægt því að skora á 57. mínútu þegar boltinn datt fyrir fætur hans í teignum en skot hans á nærstöngina varið.
Skömmu áður hafði Joelinton fengið gott færi hinu megin fyrir Newcastle en Alisson varði vel frá honum af stuttu færi.
Á 73. mínútu gaf Longstaff beint á Mané, hann kom boltanum á Salah sem skaut í hliðarnetið úr dauðafæri í teignum.
Á annarri mínútu uppbótartíma jafnaði Callum Wilson metin en VAR dæmdi mark hans af þar sem hann fékk boltann í höndina í aðdraganda marksins.
Þremur mínútum síðar jafnaði Willock svo metin. Þá skallaði annar varamaður, Dwight Gayle, boltann niður til Willock, sem skaut að marki og boltinn fór af Fabinho og í netið, 1:1.
Willock er að reynast Newcastle ofurvaramaður því hann kom af bekknum og gerði sigurmarkið gegn West Ham United um síðustu helgi og hafði áður jafnað metin sem varamaður gegn Tottenham Hotspur á dögunum.
Þar við sat og jafntefli niðurstaðan.
Liverpool er eftir leikinn í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og Newcastle er áfram í 15. sæti.