Sigur í botnbaráttunni sem kom of seint

David McGoldrick (t.h.) fagnar marki sínu í kvöld með Jayden …
David McGoldrick (t.h.) fagnar marki sínu í kvöld með Jayden Bogle. AFP

Sheffield United vann 1:0-heimasigur á Brighton í botnbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Brighton mistókst þar með að spyrna sér betur frá fallsætunum en sigurinn dugar Sheffield að vísu skammt enda liðið nú þegar fallið úr deildinni.

Örlög Sheffield voru endanlega ráðin í síðasta leik er United tapaði gegn Wolves en liðið er í neðsta sæti deildarinnar. David McGoldrick skoraði sigurmark leiksins á 19. mínútu eftir vandræðagang í vörn Brighton. Framherjinn skoraði sitt áttunda deildarmark á tímabilinu af stuttu færi eftir að gestunum mistókst að bægja hættunni frá.

Jakub Moder náði að skófla boltanum í netið í kjölfar hornspyrnu fyrir Brighton á 56. mínútu en markið fékk ekki að standa eftir athugun VAR. Moder var rangstæður þegar boltanum var spyrnt til hans og nær komust gestirnir ekki.

Sheffield United er sem fyrr segir á botni deildarinnar, nú með 17 stig, 16 stigum frá öruggu sæti þegar aðeins fimm umferðir og 15 stig eru eftir í pottinum. Brighton er í 16. sæti með 34 stig, sjö stigum frá Fulham og fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert