Þúsundir stuðningsmanna enska knattspyrnufélagsins Manchester United eru mættir fyrir utan Old Trafford, heimaleikvang félagsins, til að mótmæla eignarhaldi bandarísku Glazer-fjölskyldunnar á félaginu.
Joel Glazer, einn af eigendum United, var meðal þeirra sem studdu áformin um ofurdeildina svokölluðu og ætlaði United að taka þátt í stofnun hennar. Þá átti Glazer að verða varaformaður deildarinnar. Eftir mikla óánægju innan knattspyrnuhreyfingarinnar dró félagið þau áform til baka og Glazer bað stuðningsmenn afsökunar með opinberri tilkynningu.
Sú afsökunarbeiðni hefur hins vegar fallið í grýttan jarðveg og heimta stuðningsmenn félagsins að Glazer fjölskyldan selji Manchester United hið fyrsta.