Tilþrifin: Ofurvaramaðurinn Willock skoraði á ögurstundu

Varamaðurinn Joe Willock var hetja Newcastle United þegar hann jafnaði metin gegn Liverpool á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Að skora mikilvæg mörk er komið í vana hjá Willock, sem er í láni frá Arsenal, en hann tryggði Newcastle 3:2 sigur gegn West Ham United um síðustu helgi og hafði einnig jafnað seint í 1:1 jafntefli gegn Tottenham Hotspur í síðasta mánuði.

Mohamed Salah kom heimamönnum í Liverpool yfir strax á þriðju mínútu og eftir það klúðraði hann ásamt samherjum sínum ógrynni dauðafæra.

Það átti eftir að bíta Liverpool í rassinn enda var 1:1 jafntefli niðurstaðan.

Allt það helsta úr leiknum, þar á meðal  mörkin tvö, fjöldi dauðafæra Liverpool og mark Callums Wilsons á annarri mínútu uppbótartíma, sem var dæmt af vegna handar í aðdraganda þess, má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert