Keinan Davis skoraði jöfnunarmark Aston Villa þegar liðið tók á móti WBA í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Villa Park í Birmingham í kvöld.
Leiknum lauk með 2:2-jafntefli en Davis jafnaði metin fyrir Aston Villa með marki í uppbótartíma.
Enwar El-Ghazi kom Aston Villa yfir strax á 9. mínútu með marki úr vítaspyrnu áður en Matheus Pereira jafnaði metin fyrir WBA, einnig með marki úr vítaspyrnu, á 23. mínútu.
Tyrone Mings, miðvörður Aston Villa, varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 47. mínútu og virtist allt stefna í sigur WBA áður en Davis jafnaði metin í lokin.
Aston Villa er með 45 stig í ellefta sæti deildarinnar en WBA er með 25 stig í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar, 10 stigum frá öruggu sæti.